© Haukur Snorrason/photos.is 

Komið af Kaldadal

Blátt vatn,
brekka sefgræn í sól,
svört skriða
skyggir hálfgróinn hól.
Foss niðar.
Nálgast sólarlagsbil.
Grænn skógur,
gullroðin hamraþil.

Rauðagrjót,
gjá í skógarhlíð,
bergvötn,
blá og tær,
jökulsá straumþung, stríð.
Rauð glóð
vefur gulltöfrum veg.
Lygn á
líður fram vinaleg.

Hvítan jökul
hátt við himin ber.
Grænn dalur
gróðri vafinn
brosir móti mér.

Sigríður Einars frá Munaðarnesi