© Haukur Snorrason/photos.is 

Hjartað langar og flýgur

Hjartað langar og flýgur
burt og flýgur og flýgur
langt burt úr Stokkseyrarfjöru

Langt langt burt það flýgur
yfir sofandi hjörtu á Bakka,
yfir Strandarkirkju og Kleifarvatn
hraunbakkafullt af nýjum
tunglum og næturskýjum

Og hjartað langar og flýgur
en þreytist á fluginu og dormar
í baksæti bíls sem þýtur
eftir Reykjanesbraut eins og ör
heimleiðis síðustu för

Og vofan við stýrið segir
við hina við hlið sér „Veistu
mér finnst við alls ekki einar
síðan við fórum hjá Stapa!“

Og hjartað forðar sér, flýgur
burt og langar og flýgur
á Kleppsveginn langa við Kollafjörð
þar sem logar í efsta glugga
og Ólöfin vakir föl og ein
og skrifar eitt bréf með tárum:

„Of seint, of seint“

Ísak Harðarson