© Haukur Snorrason/photos.is 

Náttúrufræði I
(Höfuðhneigja í djúpið)

Æðurin sem kafar fyrir augum mér
hér við Stokkseyrarströnd
skýtur snögglega upp kollinum
á Djúpavogi eftir örfá augnablik

og æðurin sem birtist síðan
hér í fjöruborðinu er
allt annar fugl
kominn norðan frá Narssarssuaq
á fáeinum andartökum

Sama lögmál gildir
um hugsanir manna:
að allar þær hálfkveðnu vísur
sem hverfa úr höfðunum gegnum tíðina
hafa á augnabliki kafað öðrum í hug
á Djúpavogi, í Narssarssuaq eða Tíbet

og þessir annarlegu fuglar
sem koma óvænt úr kafi
huga míns í Reykjavík og á Stokkseyri
hafa sjálfsagt ungast út í Tíbet,
Narssarssuaq eða á Djúpavogi ...

Það er einmitt þess vegna
að hugsanirnar kafa alltaf
burt fyrr en varir

nema
þegar ég gríp þær ljóðvolgar
og kem þeim fyrir uppletruðum
í litla náttúruljóða-
safninu mínu

Ísak Harðarson