© Haukur Snorrason/photos.is 

Í Öræfasveit

Fagurt er í fjallasalnum,
friður hvert sem litið er.
Andstæðurnar engu líkar.
Almættinu vitni ber –
landið allt og lífsins máttur,
ljós og barnsins andardráttur.

Skógarlundar, fossar, flúðir,
fögur rammbyggð klettaþil,
Jöklar, sandar, grundir grónar.
Gleður eyrað strengjaspil.
Hörpu strýkur hamrabúinn,
heim er söngvadísin snúin.

Fyllir loftið unaðsómur.
Ekkert ský á himin ber.
Augun gleðja breiðar brekkur,
blágresið í flekkjum er.
Lyngið angar, lindir hjala.
Líf er heilnæmt fram til dala.

Hugrún