Ljóð sem byrja á: M
Dálkur: K Röð: 13
© Haukur Snorrason/photos.is 
Mold

Þú dökka, raka, mjúka mold,
sem mildi sólar hefur þítt.
Hve ann ég þér, hve óska ég mér,
að um þig streymi sumar nýtt.

Þú varma, þögla, mjúka mold,
hve mildur stígur ilmur þinn
til himins upp, er árdagsblær
þér úðann strýkur hægt af kinn.

Þú vagga blóma, vær og hlý,
sem vefst um stein og saltan ós,
við daggarbrjóst þín dafnar vel
og drekkur fegurð sérhver rós.

Þú byrgir hjörtu, hljóð og köld,
við hjarta þitt, sem fallin strá.
Þér fólu eilíf, óþekkt völd
að endurskapa jarðlíf smá.

Hulda
  prenta