Ljóð sem byrja á: F
Dálkur: J Röð: 18
© Haukur Snorrason/photos.is 
Ferð í Landmannalaugar

Við ökum til Landmannalauga
í langferðabílum.
Til fjallanna hugurinn hneigist
og hugfangin augu,
því margbreytt er lögun og litir
landsins, og töfrar
seyða inn í voraldar veröld
á víðsýnar slóðir.

Við ökum til Landmannalauga
og land okkar hyllum.
Við unnum þess hrjóstugu heiðum
og hamranna borgum.
Við unnum þess fossum og flúðum
og friðsælu dölum
með hvömmum og lindum og lautum
og laufgrónum hlíðum.

Við ökum til Landmannalauga
í ljómandi skapi.
Og finnum hve frjáls verður andinn
á fagnaðarstundu.
Nú léttum við af okkur öllu
sem áhyggjum veldur
og frelsis við njótum og friðar
með framsæknu liði.

Við ökum til Landmannalauga
og leiðir skal vanda,
því kappar hér standa við stýri
og stjórna með forsjá.
Við biðjum að greið verði gatan
og Guð okkur blessi.
Þá hamingjan heldur í tauma
og hopar þá hvergi.

Við ökum til Landmannalauga
og lífsþorsta svölum.
Það birtir í hugarins heimi
við háfjallasvalann.
Og blærinn þar vangana vefur,
með varfærni hvíslar:
„Þið eruð velkomnir vinir
á vitund þess dulda.

Þið eruð velkomnir vinir,
ég veit að þið fagnið
og þakkið að fóstran hin fríða
með fágæti skartar.
Hér á hún gimstein sem glóir
á gullskrýddum barmi.
„Þið eruð velkomnir vinir,
með virktum er heilsað.“

Hugrún (Filippía Kristjánsdóttir)
  prenta