Ljóð sem byrja á: E
Dálkur: B Röð: 32
© Haukur Snorrason/photos.is 
Ei glóir æ á grænum lauki

Ei glóir æ á grænum lauki
       sú gullna dögg um morgunstund,
né hneggjar loft af hrossagauki,
       né hlær við sjór og brosir grund.
Guð það hentast heimi fann,
       það hið blíða
       blanda stríðu.
Allt er gott, sem gjörði hann.

Ei heldur él frá jökultindi
       sér jafnan eys á klakað strá,
né nötrar loft af norðanvindi,
       sem nístir jörð og djúpan sjá.
Guð það hentast heimi fann,
       það hið stríða
       blanda blíðu.
Allt er gott, sem gjörði hann.

Því lyftist brún um ljósa daga,
       þá lundin skín á kinnum hýr.
Því síkkar hún, þá sorgir naga
       og sólarljós með gleði flýr.
Hryggðin burtu hverfur skjótt,
       dögg sem þorni
       mær á morgni,
uns hin raka nálgast nótt.

Þú, bróðir kær, þó báran skaki
       þinn bátinn hart, ei kvíðinn sért.
Því sefur logn á boðabaki,
       og bíður þín, ef hraustur ert.
Hægt í logni hreyfir sig
       sú hin kalda
       undiralda,
ver því ætíð var um þig.

Sveinbjörn Egilsson
  prenta