Ljóð sem byrja á: U
Dálkur: E Röð: 30
© Haukur Snorrason/photos.is 
Undir Kaldadal

Ég vildi óska, það yrði nú regn
eða þá bylur á Kaldadal,
og ærlegur kaldsvali okkur í gegn
ofan úr háreistum jöklasal.

Loft við þurfum. Við þurfum bað,
að þvo burt dáðleysis mollukóf,
þurfum að koma á kaldan stað,
í karlmennsku vorri halda próf.

Þurfum á stað, þar sem stormur hvín
og steypiregn gerir hörund vott.
Þeir geta þá skolfið og skammast sín,
sem skjálfa vilja. Þeim er það gott.

Ef kaldur stormur um karlmann ber
og kinnar bítur og reynir fót,
þá finnur ’ann hitann í sjálfum sér
og sjálfs sín kraft til að standa mót.

Að kljúfa rjúkandi kalda gegn
það kætir hjartað í vöskum hal. –
Ég vildi það yrði nú ærlegt regn
og íslenskur stormur á Kaldadal.

Hannes Hafstein
  prenta