Ljóð sem byrja á: Á
Dálkur: J Röð: 43
© Haukur Snorrason/photos.is 
Á suðurleið með myndasmið og stelpu
(Brot)

Ég sé ekki neitt og það sést ekki neitt
í svínslegu hrauninu í lest af bílum.
Til að komast áfram er eitt sem gildir
að fara framúr öfugu megin. Á hundheiðinni Hellis.
Í þoku sem þéttist og þyngist.

Bíldraugar í rangsælisbirtu. Göngum aftur.

––

Oss léttir á Kambabrún, bílnum léttir,
Nú er hann flugvél niðrúr skýi, í lágflugi að
                                      gufubraut Hveragerðis.
Gróðurhúsavíti. Þar sem allir vilja staldra.

––

Hendi var veifað, hæhó, í Kömbum
frábending sorta, nú er lag, obbosí, undirdjúp
                                          Suðurlands í léttu ljósi
og bíllinn er skúta, hljóðlaus í malaröldum.

––

Meðan sólar nýtur þá njótum við sólar
vernduð í tjaldi bílsins
fyrir vindum sem krafsa í útheimi.

Fjöllin í hringjum og jöklar í bungum marsera
hálfköruð fram í sjóndeildarhring og eitt tekur við
þar sem annað endar.
Það sem ekki sést
það er ekki til.

– – –

Af himnum ofan rennur ómenguð þokan. Safnast í
stöðuvatn, systravatn á fjalli. Úr þokuvatninu hríslast
lækir og klofna. Hæhó út í loftið, á hífoppmáli fossanna.
Tveir hvítir á leið oní byggð til sjaldgæfra trjáa. Ég stend
við gluggann og get ekki sofið á mitt eina græna.

––

Æ guð vors slétta ófellda Meðallands
hér eru afgirtir svanir í stað sauðfjár.
Ungar í girðingu, engin lömb.
Á þessum drottinsdegi eru fjöllin óskrifað blað
og sléttan opnast í engar áttir.

––

Í kirkjugarði nefnum við ekki nöfn.
Nóg er að vita. Undir þústunum öllum
hvílir eitthvað sem eitt sinn var fólk.
Það reyndi að fylla landið
en landið er alltof stórt. Í hrjóstrugum einingum.

Ó guð vors Meðallands,
mildum höndum fara vindar um grashárið. Mildum
höndum um vængi svananna.
Í vindstiganum þenjast vængirnir út. Átakalaust. Í
Meðallandi gilda samningar þar um. Þeir fljúga einsog
til var stofnað í upphafi.

––

Og sunnanvindur þuklar landbrjóst meðan rigningin
breytir grárri nekt í græna.

Bakvið brúna á glærri ánni liggur víðáttuhraunið. Þar
gráta englar á andlit úr upphleyptum mosa. Þið
fáið að sjá það framkallað
andlit, sem enginn
ætlar að skoða í framtíð.

––

Steinunn Sigurðardóttir
  prenta