Ljóð sem byrja á: G
Dálkur: Ð Röð: 5
© Haukur Snorrason/photos.is 
Gilsbakkaljóð
(Niðurlag)

Hvað drynur svo? hve dimmum glaum
Nú dunar fljótið stríða!
Það sviptir mér frá sögudraum
Og söngvum fyrri tíða,
Og trútt mig kallar til mín sjálfs,
Af trega rómi þrungið;
Mér finnst sem væri hljóð til hálfs
Úr hjarta mínu sungið.

Þú streymir áfram, elfar-fljóð!
Sem aldrei svefnfró fangar,
Og syngur þinnar ævi óð
Um árþúsundir langar.
Þín dimma hljóðadunan stinn
Ei deyfa vill, en herða.
Og samróma við sönginn þinn
Vill sál mín einnig verða.

En, kalda fljót! nú kveð eg þig
Um kyrrar aftanstundir;
Eg leita frá þér leyndan stig,
Fyr löngu sól gekk undir.
Að baki mér er birkihlíð,
Að baki hljómar niður,
Hann eyðist sem eg áfram líð
Uns allt er þögn og friður.

Á vesturhimni ríkir rótt
Sá roðinn engilfagur,
Sem hverfur ei, þá heilög nótt
Er heiðbjört eins og dagur;
En eystra nið’r á hrímfjöll hrein
Skín hvítbleikt tunglið auða,
Og stjarnan hjá því uppi’ er ein
Sem ástin blíð hjá dauða.

Þá vaknar löngun hugans há,
In hreina og ódauðlega,
Að lyftast duftsins fjötrum frá
Til frjálsra himinvega.
Ó, sumarnótt! svo heið og hljóð,
Sem hrífur sálu mína,
Í þínum frið læt eg minn óð
Með öðrum röddum dvína.

Steingrímur Thorsteinsson
  prenta