Ljóð sem byrja á: A
Dálkur: F Röð: 32
© Haukur Snorrason/photos.is 
Aftansólin eldi steypir

Aftansólin eldi steypir
yfir skýjamúr,
urðin ljómar öll og glitrar
eftir daggarskúr.
Þekkti ég barn, sem fórnir færði,
féll á kné og bað:
Töfrasilfur, sindurgull,
sól mín, gef mér það.

Æskuhilling, klökk við kveðjur
kólnar upp og dvín.
Eftir því sem árin líða
opnast stærri sýn.
Snúi ég baki að sólarseiðnum,
sé ég lágt og hátt,
þunglynt land, sem þögult er,
þýft og sinugrátt.

Dimman hljóð að dagsins baki
draumahvílu býr.
Þreyttum verður hvíldin hægust,
hina svefninn flýr.
Máttarvöld, sem vefjið gliti
vötn og birkiskóg,
gefið mér ekki gull í baug,
gefið mér járn í plóg.

Guðmundur Böðvarsson
  prenta