Ljóð sem byrja á: B
Dálkur: C Röð: 10
© Haukur Snorrason/photos.is 
Bólugil

Klettagil þröngt með fossa er falla hátt
úr fjalli, brattar urðir, dumbrauð þil
lyngsyllur grænar, grös á hrjúfum stöllum
nú gengur ekki framar lotið skáld
til fundar við þig grýtta götuslóð.

Oft kom hann hér að liðnum löngum degi.
Í loðnum hlíðarhvömmum einn hann sat
og kvöldið leið við dyn þinn, djúpa gil.

Hann greypti þína fossa er falla þungt
fjórir í hárri röð af gneypum snösum
í stökur, þar sem beiskju og böli varpar
bláklappað innrím neðar orð af orði
rammauknu falli; þar sem heiftarhug
hendinga milli stöðugt styrkar, hraðar
steypa í fossum bragorð traust og forn.

Hannes Pétursson
  prenta