Ljóð sem byrja á: B
Dálkur: C Röð: 24
© Haukur Snorrason/photos.is 
Bjarni Thorarensen

Skjótt hefir sól brugðið sumri,
því séð hef eg fljúga
fannhvíta svaninn úr sveitum
til sóllanda fegri;
sofinn er nú söngurinn ljúfi
í svölum fjalldölum,
grátþögull harmafugl hnípir
á húsgafli hverjum.

Skjótt hefir guð brugðið gleði
góðvina þinna,
ástmögur Íslands hinn trausti
og ættjarðarblóminn!
Áður sat ítur með glöðum
og orðum vel skipti,
nú reikar harmur í húsum
og hryggð á þjóðbrautum.

Hlægir mig eitt það að áttu
því uglur ei fagna,
ellisár örninn að sæti
og á skyldi horfa
hrafnaþing kolsvart í holti
fyrir haukþing á bergi;
floginn ertu sæll til sóla
þá sortnar hið neðra.

Glaðir skulum allir að öllu
til átthaga vorra
horfa, þá héðan sá hverfur
oss hjarta stóð nærri;
veit eg þá heimtir sér hetju
úr harki veraldar
foringinn tignar, því fagna
fylkingar himna.

Kættir þú margan að mörgu
– svo minnst verður lengi –
þýðmennið, þrekmennið glaða
og þjóðskáldið góða!
Gleðji nú guð þig á hæðum
að góðfundum anda,
friði þig frelsarinn lýða.
Far nú vel, Bjarni!

Jónas Hallgrímsson
  prenta