Ljóð sem byrja á: R
Dálkur: F Röð: 37
© Haukur Snorrason/photos.is 
Rústir

Hér er þá lífið líkt og forðum var:
litur í túni, söngur úti í mó,
titrandi puntur, tjarnir hér og þar,
tindar, sem rísa fyrir handan sjó.
– Grasbrekkan hérna af hinum öllum bar,
horn mín og skeljar undu þar í ró.

Spor mín hér ekki eru lengur ræk,
– allt snertir þó sinn streng í hjarta manns:
steinklappan iðkar enn hinn skrýtna kæk,
enn glitrar dögg á hvarmi ljósberans.
– Þegar ég stend við þennan bæjarlæk,
þá fer mín sál að streyma í vatni hans.

Hrörnandi rústir lágt við loftið ber,
– leið eiga fáir nú um þennan veg.
Æska mín hvílir eilíflega hér,
angurvær hennar grafreit skoða ég.
Einmana svanur flýgur fram hjá mér,
– flugið er þungt og raustin dapurleg.

Jóhannes úr Kötlum
  prenta