Ljóð sem byrja á: V
Dálkur: G Röð: 36
© Haukur Snorrason/photos.is 
Vopnin kvödd

Þetta er bjargið ...

Á þessu bjargi
reisti heimsveldið herstöð.
Land var numið með þyrlum,
ratsjártækjum, sjónaukum, húsum og vopnum,
öllu sem tilheyrir
herstöð á hjara veraldar.
Þó varð mönnum fljótt ljóst
að verkið var vonlaust,
að bjargið varð ekki þrætt
upp á keðju þess tíma
er nú gekk um heiminn.
En ekki mátti hætta:
við byggingu herstöðvarinnar
varð að ljúka
og skyldi hún starfrækt
með það helst fyrir augum
að leggja hana niður

Þetta er bjargið . . .

bjargið
þar sem gömul dægurlög
svífa á milli auðra húsa
og þokan opnar dyr
inn í ókunna heima.

Á gólfinu situr jökull
og talar upp úr svefni
um ryðgaðar leifar
úr heimsveldi tímans,
ísaldir fornar
og eilífa bið eftir engu.

Einar Már Guðmundsson
  prenta