Ljóð sem byrja á: L
Dálkur: M Röð: 3
© Haukur Snorrason/photos.is 
Langt uppi á heiði

Á heiðinni ríkir heljarþögn.
Á hólnum sést tóttarbrotið.
Enginn kann neina sögusögn
um síðasta heiðakotið.
Enginn veit, hver í bænum bjó,
hver barðist þar um og túnið sló.
Dalabændum finnst byggðin nóg,
þó býli leggist í eyði
langt, langt uppi á heiði.

Ef steinarnir fengju mannamál,
ef moldina nokkur skildi,
þá kynntist heimurinn hetjusál,
sem heiðina rækta vildi,
þá vissu allir, hver vegginn hlóð,
hver vörðurnar reisti, stíginn tróð.
En steinninn er mállaus, moldin hljóð,
þó margt sé stundum á seyði
langt, langt uppi á heiði.

Í hlaðvarpanum vex hrís og lyng,
sem helga sér tóttarbrotið,
óræktarmýrar allt í kring
og enginn, sem girnist kotið.
Ljósið er dautt, sem í bænum brann,
bóndinn gleymdur, sem reisti hann.
En tóttirnar skelfa margan mann
og minna á gamalt leiði
langt, langt uppi á heiði.

Davíð Stefánsson
  prenta