Ljóð sem byrja á: G
Dálkur: L Röð: 24
© Haukur Snorrason/photos.is 
Gróðurlaus fjöll

Í naktri dýrð með bergið blátt og kalt,
og blásna mela, jökla og skriðuföll,
rísið þið hátt og hafin yfir allt,
sem hismið þekur, gróðurlausu fjöll.

Í klettaborgum, krýndum jökulís,
býr kynngi jarðar, aflsins máttarlind.
Í tign og veldi tröllakirkjan rís
og talar djarft við regn og snjó og vind.

Hún fyrirlítur dalsins skógaskraut
og skrælnuð lauf, er fuku af kvistum bleik,
hinn veika stofn, sem bóndinn hjó og braut
og breytti í gráa ösku og stofureyk.

Sjá, hennar vilji og vonir hafa ræst.
Hún veitir nakin grænum dölum skjól
og horfir stórlát, sterk og sigurglæst
í steindri fegurð móti himni og sól.

Davíð Stefánsson
  prenta