Ljóð sem byrja á: B
Dálkur: Ð Röð: 6
© Haukur Snorrason/photos.is 
Blómasaga

Um engi og tún
og ásinn heima
ég aftur reika,
sest í brekkuna
silkimjúka
og sóleyjarbleika.

Milt var sunnan
við moldarbarðið
og melinn gráa.
Þar fagna mér ennþá
fífillinn guli
og fjólan bláa.

Engan leit ég
mót ljósi himins
ljúfar brosa
en dúnurt fríða,
sem dagsins bíður
í döggvuðum mosa.

Hverju sem ár
og ókomnir dagar
að mér víkja,
er ekkert betra
en eiga vini,
sem aldrei svíkja.

Davíð Stefánsson
  prenta