Dýr
Dálkur: A Röð: 9
© Haukur Snorrason/photos.is 
Neðst í dalnum

Neðst í dalnum byltir sér
úlfgrá jökuláin

einu sinni á sauðburði
hafði tvílembd ær
hlaupið beint í hana
frekar en láta tárvota tólf ára stúlku
reka sig heim að húsum
lömbin tvö hikuðu ekki andartak
en fylgdu móður sinni í hina votu gröf

dalurinn er langur og þröngur
tún eru á hjöllum
þungur niður er undirleikur alls
áin er hvorki lífgjafi né vinur
en hluti af lífi fólks
mælikvarði í tali

bóndi hrapar með dráttarvél sinni í ána en bjargar sér á
sundi
kona horfir á eftir fé sínu renna á svellbólstrum
hjálparlaust fyrir kletta og drukkna
útlend kona sem fer of nálægt brúninni á útsýnisstað
dettur
skolar síðar upp á aurum í annarri sveit
uppblásin, blettótt og grá
með leir í munnvikum

í sveitinni verður allt að sögum
fer hratt á milli manna
vex og bólgnar í meðförum
ekki ósvipað jökulvatninu á vissum árstíma

andleg starfsemi sveitunganna litast af ánni
menn verða svona
af því að hafa engan guð
keppa við náttúruöflin
upp á hvern einasta dag
búa til eigin sápuóperur

úlfaldar eiga ekki við hér með mýflugum

frekar hreindýr

Ingunn Snædal

  prenta