Atriðisorð:
Dettifoss
  Örnefni
Dálkur: C Röð: 22
© Haukur Snorrason/photos.is 
Dettifoss

Beint af hengilbergi
byltast geysiföll,
flyksufax með ergi
fossa- hristir -tröll;
hendist hádunandi
hamslaus iðu-feikn.
Undrast þig minn andi,
almættisins teikn!

Skjálfa fjallsins fætur,
flýr allt veikt og kvikt;
tröllið, trúi’ eg, grætur,
tárin falla þykkt!
Fimbulgröf sér grefur
gýgur römm og djúp,
öldnum Ægi vefur
örlaga sinna hjúp.

Geisa, fossinn forni,
finndu loks þitt haf,
þó ei tárin þorni,
þarftu’ ei betra traf!
Þó af þínum skalla
þessi dynji sjár,
finnst mér meir, ef falla
fáein ungbarns tár.

Hert þig, Heljar-bleikur,
hræða skaltu’ ei mig:
guðdómsgeislinn leikur
gegnum sjálfan þig.
Fagri friðarbogi!
felldu storm og bál!
Lýstu, sólarlogi,
lyftu minni sál!

Matthías Jochumsson

  prenta