Dýr
Dálkur: B Röð: 29
© Haukur Snorrason/photos.is 
Máríuerla

Sendir drottins móðir, Maríá,
mildar gjafir himni sínum frá.
Flaug úr hennar hendi vorsins perla,
heilög dúfa, lítil maríuerla.

Létt á flugi, kvik og fjaðurfín
flýgur hún um auðan geim til þín.
Í veggnum þínum vill hún hreiður búa,
varnarlaus á þína miskunn trúa.

Dável svarta húfan henni fer,
hneigir kolli ákaft fyrir þér.
Strá úr veðurbörðu, bleiku sefi
ber hún eins og friðargrein í nefi.

Grætur drottins móðir hrelld og hljóð,
hendur mannsins flekkar dauðablóð.
Fuglahjörðin, felld af grimmu valdi,
flögrar særð að hennar kyrtilfaldi.

Græðir hún á sinni skýjasæng
særðan fót og lítinn, brotinn væng.
Djúpt í hjarta sorgarundir svíða,
saklaus áður þannig mátti líða.

Sérhvert vor um varpa og bæjarhól
vappar söngvin erla á gráum kjól,
flögrar eins og bæn um geiminn bláa,
bæn fyrir hinum varnarlausa smáa.

Guðfinna Jónsdóttir frá Hömrum

  prenta