Atriðisorð:
Ólafsfjörður
  Örnefni
Dálkur: Ð Röð: 23
© Haukur Snorrason/photos.is 
Áfangar

Liðið er hátt á aðra öld;
enn mun þó reimt á Kili,
þar sem í snjónum bræðra beið
beisklegur aldurtili;
skuggar lyftast og líða um hjarn
líkt eins og mynd á þili;
hleypur svo einn með hærusekk,
hverfur í dimmu gili.

Þverhöggvið gnapir Þúfubjarg
þrútið af lamstri veðra;
Ægir greiðir því önnur slög,
ekki er hann mildur héðra;
iðkuð var þar á efstu brún
íþróttin vorra feðra:
Kolbeinn sat hæst á klettasnös,
kvaðst á við hann úr neðra.

Nú er í Dritvík daufleg vist,
drungalegt nesið kalda;
sjást ekki lengur seglin hvít
sjóndeildarhringinn tjalda;
Tröllakirkjunnar tíðasöng
tóna þau Hlér og Alda;
Fullsterk mun þungt að færa á stall,
fáir sem honum valda.

Upp undir hvelfing Helgafells
hlýlegum geislum stafar;
frænda sem þangað fór í kvöld
fagna hans liðnir afar;
situr að teiti sveitin öll,
saman við langeld skrafar,
meðan oss hina hremmir fast
helkuldi myrkrar grafar.

Alvotur stendur upp að knjám
öldubrjóturinn kargi
kagandi fram á kalda röst
kvikur af fuglaþvargi;
býsn eru meðan brothætt jörð
brestur ekki undir fargi
þar sem á hennar holu skurn
hlaðið var Látrabjargi.

Kögur og Horn og Heljarvík
huga minn seiða löngum;
tætist hið salta sjávarbrim
sundur á grýttum töngum;
Hljóðabunga við Hrollaugsborg
herðir á stríðum söngum,
meðan sinn ólma organleik
ofviðrið heyr á Dröngum.

Ærið er bratt við Ólafsfjörð,
ógurleg klettahöllin;
teygist hinn myrki múli fram,
minnist við boðaföllin;
kennd er við Hálfdan hurðin rauð,
hér mundi gengt í fjöllin;
ein er þar kona krossi vígð
komin í bland við tröllin.

Liggur við Kreppu lítil rúst,
leiðirnar ekki greiðar;
kyrja þar dimman kvæðasón
Kverkfjallavættir reiðar;
fríð var í draumum fjallaþjófs
farsældin norðan heiðar,
þegar hann sá eitt samfellt hjarn
sunnan til Herðubreiðar.

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm
sólvermd í hlýjum garði;
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði;
mér var þó löngum meir í hug
melgrasskúfurinn harði,
runninn upp þar sem Kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði.

Eldflóðið steypist ofan hlíð,
undaðar moldir flaka;
logandi standa í langri röð
ljósin á gígastjaka;
hnjúkarnir sjálfir hrikta við,
hornsteinar landsins braka,
þegar hin rámu regindjúp
ræskja sig upp um Laka.

Vötnin byltast að Brunasandi,
bólgnar þar kvikan gljúp;
landið ber sér á breiðum herðum
bjartan og svalan hjúp;
jötunninn stendur með járnstaf í hendi
jafnan við Lómagnúp,
kallar hann mig, og kallar hann þig ...
kuldaleg rödd og djúp.

Jón Helgason

  prenta