Atriðisorð:
Blöndugil
  Örnefni
Dálkur: E Röð: 1
© Haukur Snorrason/photos.is 
Jón Austmann ríður frá Reynistaðarbræðrum

Langt heim til manna, myrkar hríðar og ströng
mörg vötn tálma leiðum, hann kvað, við bíðum
þó daufleg sé vistin; drjúg munu hraunin og breið
en dreifður reksturinn; þó er böl ef við gistum
hinzt hér á Kili.

                       Liðu dægur og dimm
dundu veður á tjaldi. Fannbarðar kindur
norpuðu í gjótum, klárar hímdu í höm
hraktir og svangir. – Þó ei mér til byggða skili
skal freistað að leita manna, því nú er nóg
nauð okkar orðin, hann mælti. Geig sló að hinum
er fór hann. Þeir biðu. Svo tygjaði’ hann tröllaukinn hest
hjá tjaldinu, kvaddi, var horfinn í sama bili.

Hann fann brátt stórviðrið æsast, ýlfrandi slá
ísköldum éljum í vit sín, magna sér kraft
og þrautseigju, vekja útsjón um bjarta byggð
breiða dali með sólskin á hverju þili
en fann það líka binda sig böndum við þá
sem biðu í tjaldinu, sterkum, mörgum, og von
þeirra um líf eins og þunga á herðum unz varð
þeirra líf allt.
                       Hann reið yfir hraunin og loks
er klárinn nam staðar þar dunaði í djúpum hyli
dimmt fljót sagði hann glaður: ó byggð, ó líf!
Reið áfram til norðurs. Hraustlega hélt um taum
sú hönd sem fannst dauð og ein niðrí Blöndugili.

Hannes Pétursson

  prenta