Atriðisorð:
Goðafoss
  Örnefni
Dálkur: K Röð: 31
© Haukur Snorrason/photos.is 
Hringurinn

hringvegurinn er skynjanaklessur
þar sem maður stoppaði

hlusta ekki á veðurfregnir
lesa ekki blöð keyra hringveginn réttsælis
marga hringi og bora sig djúpt
inn í landið inni í landinu
mitt eigið land þar sem allt lætur að stjórn
leysist upp í sjóndeildarhringi

hringi með hnútum
hringi með blómum
hringi með fuglum

1
staðurinn hellir galdri í eyrað
svo að málverkið á bænum efst í byggð
af opinmynntum eilífum karlakvartetti
sendir hljóð út um munnana svo hátt
að léreftið hreyfist

2
mynni Surtshellis
göfugt svart öræfaljónið
kveður hljóð á dýpstu nótunum
losar þarmana
inni í myrkrinu
ystu mörk lífsins
sögur af hellismönnum
með flot í munnvikum og þægar kvensur
með þæga kríka og víkur
hellirinn magi hvals
Jónas í hvalnum í dýpstu öng
að skilja guð jafnt og þétt
skilur og helmingar
eins og hvalurinn klýfur mjúkan sjó

3
vegurinn upp fjallið
hvert í andskotanum fer hann?
hugsa stórt um það
horfa þangað stíft sjá að lokum
sjálfan sig ríða upp eftir honum á stórum pelikana
lengi lengi með hundinn í bandi og hverfa yfir hæðina
elegant

og sjá þar þorsta
þess dvergvaxna gróðurs
hæ jurt af byrkningafylkingu
eins og risaeðlur átu
þar sem Goðafoss öskrar gróft vatn oní djúpið
og svitnar silkibunum
gælir við svarta kletta svo næma við svelginn
vatn og jörð gera það svona hérna já

4
kvikt og þykkt tíðablóð jarðar
varð hart hraunið við Mývatn
hvernig má þetta allt vera
Ísrael ól forsprakka tímatals
þegar Atlantshafssprungan gubbaði þessu hrauni
Jesúhraun ekkert mál að skríða yfir þig nú
eins og heilagur Jeremías nakinn í eyðimörkinni
fá flís úr eðli guðdómsins í auga
lævís mjúk græn hraunætan
hefur vafið sig um storknaða ógnina
úr lesa þeir sem þekkja innsta eðli mosa
tvö þúsund ár
þú og þín vitund mjúki mosi

5
Mývatnsöræfi svo þurr núna
þæg moldin fýkur sem leið liggur í hafið
utan skipulags flugumferðar og sjóferðaeftirlits
grjótmelar opinn kjaftur
vísundabein
köld svört helgrind eyðimörk
öræfi í stormi eftir svo langa þurrka
æ sandur í öll vit
bryðja hann og fylla lungun
sandþungað vit mitt
og enginn eyðimerkurguð
tjasla saman í flýti grænum augnblettum
kúbískri grænku
heim í frumskóginn api bílstjóri takk
strax og unnt er
maður fæðist hér trjálaus í eðli sínu api
klassískar reginskyssur og veðrið

6
og storminn herðir
kemur hann í storminum óttinn dulbúinn
aftan úr steinöld
þegar stormurinn húðflettir landið
dregur hjartað niður í iðrin
óttinn sem stjórnar dýpkunarframkvæmdum
við hafnir sem heilbrigðir sjófarendur varast
þungur loftveggurinn
æðir óstöðvandi yfir
öskrið skekur fjöllin
lyftist sprengjan
milli jöklanna innvortis

þá rignir loks
og vætan límir rofabörðin mín föst
sleikja og liggja þar um stund svo gott
og við húsið rífur gjósturinn
upp bláan flauelsmunn garðfjólunnar
víst er Hallormsstaður djúsí
holdmikill og loðinn

7
Lagarfljótsormurinn finnur sig knúinn
til að reka augað langt upp úr fljótinu
fékk skyndilegan snert af því
að lengst uppi lægi vegur

lambhrútur í Suðursveit
skynugt kjöt í ull
telur sig hreyfanlegt fjall
fattar að hann er ekki vitund sjóndeildarhrings
þegar bíllinn æðir að honum

8
æ væri mjúkt grjót í fjallaskörðum
og vatnsmiklir höggvarar
streymdu úr grjótinu myndir
mundu allir brátt sjá
myndirnar í ótilhöggna grjótinu
og þunga grjótið í grjótlandinu
mundi lyftast og speglast í jökli
æ mynd okkar innilukt í steini
eftir að finna okkur að höggva okkur út
ekkert gerist og sólin jafn köld og fjarlæg
örsmátt blómið kemst ekki nær
en ef hundurinn fengi langt langt band
sólsækni hundurinn langt band
og elti sólu upp himinn
langt hlýrra og hlýrra með lokuð augu
og Skaftafell þrýstir
gróðursælli hugmynd í vit

9
skotinn fugl dregur níðþungan skugga
í sömu andrá
heim í Reykjavíkurröst
þann heljarsvelg
hún gleypir oss niður í eðlilega mynd sína
og landið aftur veðurspákort

varlega heim aftur
eðlilega fljúgandi
með brothætta sjóndeildarhringa
sem augun skáru út
á meðan regndropar hringuðu haf

Þórunn Valdimarsdóttir

  prenta